Lög KSS

Kristileg skólasamtök

-samþykkt á aðalfundi félagsins 2014-

 

1. grein

a) Félagið heitir Kristileg skólasamtök, skammstafað KSS.

b) Félagið er aðili að Kristilegu skólahreyfingunni, skammstafað KSH.

 

2. grein

Félagið bindur starf sitt og boðskap við fagnaðarerindið um Jesú Krist, son Guðs, er gaf sjálfan sig fyrir syndir vorar, reis aftur upp frá dauðum, oss til réttlætingar samkvæmt heilagri ritningu og játningarritum Evangelísk-Lútherskrar kirkju.

 

3. grein

Félagið vinnur að eflingu og útbreiðslu kristinnar trúar meðal ungs fólks á aldrinum 15-20 ára. Aldur miðast við aldursár.

 

4. grein

a) Allir á aldrinum 15-20 ára, geta verið félagsmenn ef þeir uppfylla skilyrði 4.gr. lið b. Aldur

skal miða við aldursár.

b) Allir félagsmenn gangast undir lög félagsins og skuldbinda sig til að flytja ekki annan boðskap í nafni þess en þann, er félagið hefur bundið sig við í 2. grein.

c) Stjórn félagsins hefur heimild til að fella af meðlimaskrá nöfn þeirra sem ekki hafa sótt neinn félagsfund í heilan vetur, svo og þeirra sem breyta gegn anda félagsins á alvarlegan hátt.

 

5. grein

a) Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum sem skulu vera kosnir á aðalfundi. Stjórn situr í eitt ár í senn.

b) Í stjórn félagsins má ekki kjósa aðra en þá sem játa persónulega trú samanber 2. grein.

c) Stjórnir KSH, KFUM & KFUK skipa sameiginlega einn fulltrúa í stjórn KSS og einn til vara. Fulltrúinn sé aðeins áheyrnarfulltrúi og skal vera skipaður fyrir 30. apríl ár hvert.

d) Stjórnin skipar með sér verkum og annast framkvæmdir á gerðum félagsins. Ber hún einnig ábyrgð á gerðum sínum fyrir aðalfundi.

e) Stjórnin afhendir hverjum þeim félagsmanni, er æskir þess, afrit af félagslögunum.

 

6. grein

a) Aðalfundur skal haldinn í apríl ár hvert og skal boða til hans með minnst viku fyrirvara.

b) Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa þeir sem fullnægja ákvæðum 4. greinar lið a) og hafa verið skráðir félagsmenn að minnsta kosti frá 20. október árið áður en

aðalfundur fer fram. Ber þeim að fullnægja að öðru leyti þeim kröfum sem gerðar eru til félagsmanna í 4. grein lið a.

c) Kjörgengi í stjórn KSS hafa allir atkvæðisbærir félagsmenn sem uppfylla

skilyrði 6.gr. lið b. Nái félagsmaður á tuttugasta aldursári kjöri skal hann

halda félagsstöðu sinni fram að næsta aðalfundi.

d) Kjörnefnd tveggja manna skal skipuð fyrir 15. mars. Stjórnin útnefnir annan en stjórnir KSH, KFUM og KFUK hinn. Nefndarmenn séu utan stjórnar KSS.

e) Fyrir 15. mars gerir stjórn KSS skrá yfir þá félagsmenn sem atkvæðisrétt hafa á næsta aðalfundi. Afrit af skránni skal afhenda kjörnefnd svo fljótt sem auðið er, ásamt eintaki af lögum félagsins.

f) Kjörnefnd tekur á móti uppástungum félagsmanna um menn á kjörlista.

g) Kjörnefnd stýrir stjórnarkjöri á aðalfundi.

h) Kosnir skulu af kjörseðli 5 menn í stjórn. Kosning sé skrifleg.

i) Aðalfundur kýs einn skoðunarmann reikninga og einn til vara.

j) Fráfarandi stjórn leggur fram ársskýrslu á aðalfundinum og sé hún undirrituð af ritara og formanni, þegar aðalfundur hefur samþykkt hana. Einnig séu lagðir fram endurskoðaðir ársreikningar og séu þeir undirritaðir af gjaldkera. Aðalfundargerðin skal rituð í sérstaka bók og undirrituð af formanni og ritara.

k) Á aðalfundi skal kjósa um breytingar á lögum þessum. Tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu berast stjórn félagsins innan viku frá því boðað er til aðalfundar. Skal stjórnin sjá til þess að félagsmönnum gefist kostur á að kynna sér lagabreytingatillögur fyrir aðalfund. Með samþykki aðalfundar má þó félagsmaður bera upp breytingartillögu á aðalfundi, enda sé hún vel kynnt fyrir fundarmönnum.

 

7. grein

Fé það, sem félaginu kann að áskotnast, er lagt í sjóð, sem standi straum af kostnaði við rekstur félagsins. Sjóður þessi er nefndur félagssjóður í lögum þess. Eigi má ávaxta félagssjóð nema í bönkum, sparisjóðum og með ríkistryggðum verðbréfum.

 

8. grein

Leggist Kristileg skólasamtök niður af einhverjum ástæðum skulu eignir þeirra faldar stjórn KSH til varðveislu þar til stofnað er annað félag á sama grundvelli (samanber 2. grein, 3. grein og 5. grein lið b).

 

9. grein

Lögum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi, og þá með 70% greiddra atkvæða. Þó má alls ekki breyta 2. grein, 4. grein lið b), 5. grein lið b), 8. grein og 9. grein, né öðru í ósamræmi við þær.