Um KSS

Kristileg skólasamtök

KSS, eða Kristileg skólasamtök, er félag fyrir ungt fólk á aldrinum 15-20 ára. Félagsmenn halda fundi á laugardagskvöldum kl. 20:30 að Holtavegi 28, húsi KFUM og KFUK, í Reykjavík.

Á KSS fundum syngjum við saman, fáum uppbyggjandi og jafnframt skemmtilega fræðslu um kristna trú og kitlum hláturtaugarnar í góðra vina hópi. Eftir fundi er svo yfirleitt einhver skemmtileg dagskrá við allra hæfi.

Félaginu er stjórnað af félagsmönnum sjálfum. Einu sinni á ári er kosið í fimm manna stjórn sem skipuleggur og ber ábyrgð á starfi félagsins. Einnig eru hinar ýmsu nefndir starfandi innan félagsins. Samfélagsnefnd sér um og skipuleggur dagskrána eftir fundi, árshátíðarnefnd heldur utan um hina stórglæsilegu árshátíð félagsins sem haldin er einu sinni á hverjum vetri, kynningarnefnd sér um öflugt kynningarátak félagsins í upphafi hvers vetrar og svona mætti lengi telja.

Í KSS er að finna afar öflugt tónlistarlíf þar sem margir hafa stigið sín fyrstu skref á framabraut tónlistarinnar.

Á haustin og vorin fara KSS-ingar saman í Vatnaskóg á svokölluð skólamót. Þetta eru helgarferðir sem samanstanda af miklu fjöri og fræðslu um kristna trú ásamt því að vera tækifæri til þess að kynnast betur innbyrðis.

Það er tekið vel á móti öllum í KSS. Taktu skrefið! Við hlökkum til að sjá þig