Kristileg skólasamtök

Kristileg skólasamtök voru stofnuð 22. janúar 1946 og halda úti reyk- og vímulausu félagsstarfi fyrir ungmenni í efsta bekk grunnskólanna og í framhaldsskólum. Markmið félagsins KSS er vinna að eflingu og útbreiðslu kristinnar trúar meðal ungs fólks á aldrinum 15-20 ára. Starfsemin er að mestu bundin við vikulega fundi yfir veturinn á laugardagskvöldum kl 20:30 í húsi KFUM og KFUK, Holtavegi 28. Þar eru kristnir söngvar og kristin fræðsla í fyrirrúmi en líka lögð áhersla á heilbrigða skemmtun án vímugjafa eftir að fundi líkur. Fræðslan er í höndum fjölbreytts hóps guðfræðinga, presta og kristniboða sem og kristinna leiðtoga á ýmsum sviðum. Fyrir utan hina vikulegu fundi eru fastir liðir í starfi KSS: haustskólamót í um mánaðarmót október og september, vorskólamót um bænadagana, Þorláksmessumstund og sumarfundir. 

Félaginu stjórnar 5 manna stjórn sem kosin er á ári hverju úr hópi félagsmanna. Hún ber ábyrgð á framkvæmd félagsstarfsins en aðeins mjög takmarkaða ábyrgð á þátttakendum í starfinu. Hún vinnur að því í samstarfi við Eldri fulltrúa og stjórn KSH (en KSS er aðili Kristilegu skólahreyfingunni og nýtur stuðnings og leiðsagnar starfsmanns hennar og stjórnar) að á hverjum KSS-fundi sé svokallaður öldungur, manneskja sem er eldri 20 ára eða eldri og hjálpar stjórninni að líta eftir fundargestum og að almennar reglur um umgengi og samskipti séu virtar.

Hópur fyrir foreldra á Facebook

Facebook-hópur hefur verið stofnaður undir heitinu Foreldrar barna í KSS. Hópur þessi er ætlaður foreldrum barna (yngri en 18 ára) sem taka þátt í starfi KSS með einum eða öðrum hætti. Hér geta foreldrar rætt mál sem koma upp tengd starfsemi félagsins, kallað eftir upplýsingum og beint ábendingum til stjórnar KSS og KSH í gegnum Ólaf Jón skólaprest og Pál Ágúst eldri fulltrúa KFUM og KFUK og KSH í stjórn KSS.

 

KSS-fundir og útivistartími barna

Skipulögð dagskrá KSS nær oft til miðnættis og í einstaka tilfellum lengur. Í 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, segir um útivistartíma: 

Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.

Jafnframt segir umboðsmaður barna

  • Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag.
  • Reglur barnaverndarlaga um útivistartímann gilda ekki fyrir þá unglinga, sem verða 16 ára á árinu. Lög kveða því ekki á um útivistartíma 16 ára unglinga.
  • Börn öðlast stigvaxandi rétt til að taka ákvarðanir um eigin málefni sjálf með hækkandi aldri og auknum þroska, þar á meðal varðandi útvistartíma. Þar sem foreldrar fara með forsjá barna og bera ábyrgð á þeim til 18 ára aldurs er það þó í höndum foreldra að ákveða útivistartíma barna á aldrinum 16 til 18 ára. Foreldrum ber þó að veita börnum tækifæri til að hafa áhrif á slíkar reglur, eins og meðal annars kemur fram í 28. gr. barnalaga. Eðlilegt er að foreldrar setji reglur um útivist 16 ára barns í samráði við barnið og þurfa reglurnar að vera sveigjanlegar, sanngjarnar og skiljanlegar barninu.

 

Hvað varðar útivistartíma hefur KSS, sem æskulýðsfélag sem stendur fyrir skipulögðum æskulýðssamkomum, heimild til þess að standa fyrir dagskrá sem nær fram yfir útvistartíma barna almennt. Yfirgefi barn hins vegar auglýsta dagskrá KSS er það á eigin vegum og getur eftir atvikum verið að brjóta lög um útivistartíma. Stjórn KSS og öldungur hefur ekki yfirsýn yfir það hvenær barn kemur í auglýsta dagskrá og hvenær það fer, né heldur hvernig. Foreldrar eru því beðnir um að aðgæta þessi atriði vel sjálf og fylgjast eins vel og unnt er með því hvar barnið er á hverjum tíma og hvernig það ferðast í og úr auglýstri dagskrá KSS.

 

Eldri fulltrúi KSS

Páll Ágúst Þórarinsson, s. 846-9097,  er eldri fulltrúi KSS. Hann ásamt skólapresti veitir stjórn aðstoð við rekstur félagsins. 

 

 

 

Skólaprestur 

Ólafur Jón Magnússon, s. 616 6152 – olafur.jon@ksh.is, er starfsmaður Kristilegu skólahreyfingarinnar (KSH) samtaka um kristilegt skólastarf á Íslandi og KSS hefur aðild að. Hann starfar sem prestur fyrir KSH og aðildarfélögin. Hægt er að leita til hans með öll mál er varða KSS og þáttakendur í starfi félagsins.