Kristileg skólasamtök

Félagið og starfið

Kristileg skólasamtök halda úti vönduðu og faglegu starfi fyrir ungmenni á aldrinum 15-20 ára. Markmið KSS er að vinna að eflingu og útbreiðslu kristinnar trúar meðal ungs fólks í efstu bekkjum grunnskóla og menntaskóla. Áfengi sem og önnur vímuefni eru að sjálfsögðu með öllu óheimili á fundum og viðburðum félagsins.

Starfsemin er að mestu bundin við vikulega fundi yfir veturinn á laugardagskvöldum kl 20:30 í húsi KFUM og KFUK, Holtavegi 28. Á fundunum er lifandi tónlist og kristin fræðsla í fyrirrúmi en líka lögð áhersla á heilbrigða skemmtun eftir að fundi líkur. Fræðslan er í höndum fjölbreytts hóps guðfræðinga, presta og kristniboða sem og leiðtoga í starfi KFUM og KFUK.

Fyrir utan hina vikulegu fundi eru fastir liðir í starfi KSS:

  • Haustskólamót í Vatnaskógi, oftast í október.
  • Vorskólamót í Vatnaskógi í vikunni fyrir páska (mið-laug).
  • Árleg árshátíð sem er sameiginleg með Kristilegu stúdentafélagi (KSF)
  • Jólatónleikar í desember þar sem félagsmenn sjá um tónlistarflutning og söng.
  • Þorláksmessustund í Friðrikskapellu að kvöldið 23.desember.

 

KSS-fundir og útivistartími barna

Skipulögð dagskrá KSS nær oft til miðnættis og í einstaka tilfellum lengur. Í 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, segir um útivistartíma: 

Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.

Jafnframt segir umboðsmaður barna

  • Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag.
  • Reglur barnaverndarlaga um útivistartímann gilda ekki fyrir þá unglinga, sem verða 16 ára á árinu. Lög kveða því ekki á um útivistartíma 16 ára unglinga.
  • Börn öðlast stigvaxandi rétt til að taka ákvarðanir um eigin málefni sjálf með hækkandi aldri og auknum þroska, þar á meðal varðandi útvistartíma. Þar sem foreldrar fara með forsjá barna og bera ábyrgð á þeim til 18 ára aldurs er það þó í höndum foreldra að ákveða útivistartíma barna á aldrinum 16 til 18 ára. Foreldrum ber þó að veita börnum tækifæri til að hafa áhrif á slíkar reglur, eins og meðal annars kemur fram í 28. gr. barnalaga. Eðlilegt er að foreldrar setji reglur um útivist 16 ára barns í samráði við barnið og þurfa reglurnar að vera sveigjanlegar, sanngjarnar og skiljanlegar barninu.

 

Hvað varðar útivistartíma hefur KSS, sem æskulýðsfélag sem stendur fyrir skipulögðum æskulýðssamkomum, heimild til þess að standa fyrir dagskrá sem nær fram yfir útvistartíma barna almennt. Yfirgefi barn hins vegar auglýsta dagskrá KSS er það á eigin vegum og getur eftir atvikum verið að brjóta lög um útivistartíma. Stjórn KSS og starfsmenn hafa ekki yfirsýn yfir það hvenær barn kemur í auglýsta dagskrá og hvenær það fer, né heldur hvernig.

Foreldrar eru því beðnir um að aðgæta þessi atriði vel sjálf og fylgjast eins vel og unnt er með því hvar barnið er á hverjum tíma og hvernig það ferðast í og úr auglýstri dagskrá KSS.